Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
8 atriði sem ég hefði viljað vita fyrr í lífinu
27.5.2009 | 22:39
1. Treystu innsæi þínu - alltaf. Svo margt sem við gerum í lífi okkar, sérstaklega á yngri árum, er til þess að uppfylla þörf okkar að tilheyra samfélagi. Þörfin fyrir að fá samþykki og tilheyra er mjög sterk. Við erum ótrúleg í hjarðhegðuninni....Hver kannast ekki við að hafa valið ákveðinn menntaskóla út af vinunum eða keypt sér sömu gallabuxur og hinir. Með aldrinum kynnist maður sjálfum sér betur og það hjálpar manni að vita hvað maður raunverulega vill.
2. Njóta augnabliksins, njóta ferðarinnar í staðinn fyrir að hugsa alltaf um áfangastaðinn. Við erum alltof oft að bíða eftir einhverju, bíða eftir að klára skólann, bíða eftir að komi áramót, bíða eftir að við séum tilbúin. Hættu að bíða og njótum augnabliksins.
3. Lífið er ekki svart-hvítt. Það eru mörg grá svæði, sérstaklega þegar kemur að fólki og mannlegum aðstæðum. Sem barn og unglingur hafði ég tilhneigingu til að flokka, og í sumum tilfellum dæma, hlutina og aðstæður. Ég sé það núna, sá það ekki þá. Með tímanum lærir maður að sjá stærri myndina og taka lífinu með æðruleysi.
4. Tíminn er það dýrmætasta sem við eigum og við verðum að nota hann vel. Tíminn sem fer í sjónvarpsgláp er mikil t.d. alveg rosaleg sóun. Svo líður tíminn alltaf hraðar og hraðar eftir því sem maður eldist og þroskast. Mikilvægt er að nota tímann með sínum nánustu því lífið er svo fljott að breytast og líða. Sem dæmi finnst mér ótrúlegt að næsta haust á ég tvö börn í skóla...því það virðist vera ótrúlega stutt síðan þau voru bæði á bleyju.
5. Passaðu peningana þína og hættu að eyða í óþarfa drasl. Jú pabbi sagði þetta mjög oft við mig en sjaldan virðist góð vísa of oft kveðin. Við getum komist af með miklu minna en við almennt gerum og það er ótrúlega margt sem ég hef keypt í gegnum tíðina sem endaði í geymslunni eða ruslafötunni. Þeir sem eiga minna hafa minni áhyggjur (skv. Dalai Lama). En sem sagt: leggðu mikið uppúr því að vera fjárhagslega frjáls og óháður öðrum.
6. Lífið er stöðugur lærdómur, hættum aldrei að meðtaka nýja visku. Þeir sem loka fyrir nýjungar og breytingar almennt fara á mis við mikið. Lífið er í eðli sínu alltaf að breytast og þróast. Verum dugleg að lesa og mynda okkur eigin leiðir til að öðlast skilning og visku. Mér finnst líka mikilvægt að vera opin fyrir ólíkum skoðunum ólíks fólks, það hafa allir ástæðu fyrir sinni skoðun á hlutunum.
7. Það sleppur enginn við að rækta líkama og sál. Ef þú ert að vanrækja þann hluta lífs þíns, byrjaðu þá strax á morgun. Góð heilsa er undirstaða alls. Svo náttúrulega minnkar brennslan með aldrinum eins og ég veit ekki hvað. Fitupúkinn kemur alltaf í bakið á manni ef maður hættir að vanda sig í mataræðinu og gleymir að hreyfa sig. Hreyfing er líka eina raunverulega mótefnið við hrörnun líkamans.
8. Virða og HLUSTA á foreldra sína. Þau eru búin að fara í gegnum þetta allt og þó samfélagið sé breytt að einhverju leyti eru þarfir og hugsanir fólks alveg nákvæmlega eins.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sjálfið
10.5.2009 | 12:35
Að virða og rækta líkamlegt ástand sitt er í raun útvíkkun á því að virða og rækta innra sjálfið. Sú ríka tenging sem er milli líkama og sálar er órjúfanleg. Í starfi mínu sem þjálfari hef ég oft orðið vitni af þvi að líkamsrækt getur orðið eins konar vakning á andlegum þáttum í lífi manneskju og öfugt.
Samband okkar við jörðina og náttúruna er líka hluti af þessu ferli. Það hvernig við getum nærst af jörðinni og afurðum hennar er í raun grundvöllur lífskrafts mannsskepnunnar. Ef við vanvirðum líkama okkar með lélegri fæðu (líkamleg eða hugarfarsleg) svarar líkami okkar með alls kyns kvillum. Ef við gleymum að hlusta og skynja þá missum við tenginguna og þá erum við síður líkleg til að finna hið nauðsynlega jafnvægi sem þarf til að finna fyrir orku jarðar og orku sjálfsins.
Það að komast í tengingu við sína eigin orku, sjálfið, og skilja að sama ljós skín innra með okkur öllum er andleg uppljóstrun sem getur einungis skilað okkur meiri lífsfyllingu.
Gleðilegan sunnudag!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kíkt í eldhússkápana
1.5.2009 | 14:57
Í nýjasta tölublaði Vikunnar er viðtal við mig þar sem ég kíki í eldhúsið hjá kærri vinkonu. Þar bendi ég henni á það hvað er óæskilegt þegar kemur að heilbrigðu og hollu mataræði og kem með tillögur af betri kostum. Endilega nælið ykkur í eintak og látið mig vita hvað ykkur finnst
Einnig ef þið hafið áhuga á að ég kíki í skápana heima hjá ykkur þá býð ég uppá slíka þjónustu. Það sem kemur ekki fram í greininni í Vikunni eru þær einstaka tillögur að vörum sem ég mæli með - út af auglýsingafaktornum. Þannig býð ég upp mun ítarlegri og nákvæmari leiðbeiningar sem eru sérsniðnar að ykkar þörfum. Fáar litlar en skýrar breytingar geta breytt mjög miklu
Kveðja, Addý
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)